11.10.2008 22:21

Vilja minnka umfang Landsmótanna

Vilja minnka umfang Landsmótanna

Almennur vilji virðist fyrir því meðal hestamanna að létta dagskrá Landsmóta hestamanna. Á umræðufundi LH um LM2008 voru flestir sem tóku til máls á þeirri skoðun. Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur lagði til að kynbótahrossum yrði fækkað í 150 á LM2010. Einnig lagði hann til að milliriðlum og B úrslitum í gæðingakeppni verði sleppt.

Góð mæting var á fundinn, þrátt fyrir drunga í þjóðarsálinni þessa dagana. Á fjórða tug manna sátu fundinn. Flestir gáfu LM2008 góða einkunn fyrir skipulag, ef frá eru talin salernismál og tjaldstæðismál, sem fóru úr skorðum. Töldu menn að mótsstjórn hefði staðið sig vel í erfiðum aðstæðum, en tvisvar sinnum gerði slíkt ofsaveður að allt ætlaði um koll að keyra.

Einnig var bent á að svæðið hefði ekki verið að fullu tilbúið þegar mótið hófst. Jóna Fanney Friðriksdóttir baðst afsökunar fyrir hönd stjórnar Landsmóts ehf. á því að ekki tókst að fylgja því skipulagi sem lagt var upp með varðandi tjaldstæðin. Hún sagði að fjöldi salerna á svæðinu hefði verið langt umfram staðla. Svo virtist sem notkun þeirra færi mjög eftir staðsetningu og það þyrfti að fara yfir. Almenn ánægja var með það framtak LH að halda fundinn og þökkuðu fundargestir það. Fram hefur komið ósk um að annar fundur verði haldinn á Norðurlandi og hefur Haraldur Þórarinsson, formaður LH tekið vel í þá hugmynd.

Búið að fullreyna gamla formið

Sú hugmynd var viðruð á umræðufundi LH um LM2008 að sleppa bæri milliriðlum í gæðingakeppni, sleppa B úrslitum og fækka hrossum. Sigurður Ævarsson, mótsstjóri, sagði að gæðingakeppnin á LM2008 hefði tekið 40 klukkustundir.

Þá er meðtalin forkeppni, milliriðlar og úrslit í A og B flokki, og keppni yngri flokka. Ekki töltkeppni. Hann sagði það ekki góða hugmynd að hverfa aftur til fyrra forms, að láta alla keppendur ríða fullt prógramm einn og einn í einu. Það væri komin full reynsla á það form. Það væri of tímafrekt og gengi ekki upp miðað við þann fjölda keppenda sem nú er á Landsmótum.

Ekki gerlegt að sleppa fordómum kynbótahrossa

Jón Finnur Hansson, framkvæmdastjóri Fáks, sagði á umræðufundi LH um LM2008 að hann væri á móti því að kynbótahrossum yrði fækkað á LM. Hann færi á Landsmótin til að sjá þau sem flest og fá samanburð. Betra væri að sleppa fordómum, láta yfirlitssýningu og verðlaunaafhendingu nægja. Hugsanlega mætti dæma tíu efstu hross í hverjum flokki eftir yfirlitssýningu til að raða í verðlaunasæti.

Guðlaugur Antonsson sagði að þessi hugmynd hefði oft verið rædd, en hún gengi einfaldlega ekki upp. Hrossin kæmu á svo ólíkum forsendum inn í yfirlitssýningu. Þar hefðu sum hross til dæmis möguleika á að hækka sig fyrir ákveðin atriði vegna breyttrar járningar frá í forskoðun. Það væri því ekki jafnræði með hrossunum. Sú hugmynd hefði einnig verið rædd að hafa bara sýningu kynbótahrossa, enga dóma. Menn óttuðust hins vegar að þá færi spennan úr og ekki yrði eins gaman lengur.

 

Flettingar í dag: 669
Gestir í dag: 216
Flettingar í gær: 1234
Gestir í gær: 398
Samtals flettingar: 444149
Samtals gestir: 53447
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 10:12:00

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere